Fyrirtækið
Stjórnarhættir, samfélag og sjálfbærni hjá Veritas
Sjálfbærni- og samfélagsskýrsla Veritas samstæðunnar birtist nú í þriðja sinn. Fyrsta árið fór í að ná saman heildstæðri samantekt á fjölbreyttum verkefnum í umhverfismálum, stjórnarháttum og félagslegum þáttum. Annað árið beindist athyglin að markmiðasetningu, hönnun viðeigandi mælikvarða og því verkefni að finna leiðir til að ná árangri varðandi þá. Tækifæri til umbóta eru mjög mismunandi á milli félaga samstæðunnar, enda starfsemi þeirra ólík. Með samræmdu átaki í sjálfbærniverkefnum og með þátttöku starfsmanna frá öllum félögum samstæðunnar náum við betri árangri. Í því skyni voru sjálfbærnivinnustofur haldnar með stjórnendum í upphafi ársins 2022 og voru sett markmið í öllum sjálfbærniþáttum sem kynnt verða í skýrslunni.
Ávarp forstjóra
Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri VeritasÞriðja sjálfbærni- og samfélagsskýrsla Veritas samstæðunnar lítur nú dagsins ljós. Það er áhugavert að líta yfir farinn veg og sjá hvernig þau hugtök, vinnubrögð og almenn viðhorf sem fylgja sjálfbærni hugsuninni eru orðin starfsmönnum töm, þó verkefnunum og áskorunum á þessu sviði fari síst fækkandi. Eiginlega er það svo að því lengra sem málin eru skoðuð, því skýrara verður það hversu endalausir möguleikarnir eru á því að gera betur. Því var ákveðið á árinu að leggja málaflokknum til meiri athygli og tíma með ráðningu starfsmanns, en fram að þessu hefur verkefnum verið stýrt með verkefnahópi og ytri ráðgjafa.
Sjálfbærni- og samfélagsskýrsla Veritas er gerð með nokkuð sama hætti og framsetningu og áður. Við finnum það glöggt að þessar upplýsingar eru gagnlegar fyrir ýmsa hagsmunaaðila fyrirtækisins. Sér í lagi hefur það komið skýrt fram í söluferli sem fyrirtækið er í en það kallar á mikla upplýsingagjöf til væntanlegra kaupenda og annarra aðila sem koma að ferlinu.
Við höfum lagt mikla vinnu í að ná utan um umhverfishluta sjálfbærninnar á undanförnum árum og teljum okkur þekkja þann hluta mjög vel. Við vorum því meðvituð um áhrifin sem það hefði að halda árshátíð félagsins í útlöndum og auka þannig á losun fyrirtækisins. Við töldum eigi að síður mikilvægt að standa við þau loforð sem við höfðum gefið starfsmönnum.
Í upphafi ársins 2022 héldum við vinnustofur með stjórnendum Veritas samstæðunnar þar sem áherslur voru lagðar í sjálfbærnimálum fyrirtækisins til framtíðar. Áherslum var raðað eftir mikilvægi að mati stjórnenda sem höfðu fyrri sjálfbærniskýrslur og umhverfisstefnur að leiðarljósi í vinnunni. Sjálfbærniáherslur Veritas 2022-2023 byggja þannig á þeim mikilvægu þáttum sem að mati stjórnenda geta haft mest áhrif á umhverfi, samfélag, efnahag og mannauð. Þau markmið birtast hér í skýrslunni og ná til allra þessara þátta.
Við viljum axla okkar ábyrgð sem mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfi landsins af alvöru og festu og sinnum okkar hlutverki af kostgæfni. Öll félög Veritas taka virkan þátt í þróun heilbrigðismála á Íslandi. Með þessum nýju áherslum byggjum við ofan á fyrri verkefni og vona stjórnendur að jákvæð áhrif fyrirtækisins á samfélagið aukist og dragi úr þeim neikvæðu. Við trúum því að við getum unnið fleiri sigra með sjálfbærni að leiðarljósi og gerum okkar besta í þeirri vegferð að breyta heiminum.
Þóranna Jónsdóttir Stjórnaformaður Veritas
Þóranna ræðir sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð og tækifæri Veritas í þeim efnum.
Um skýrsluna
Þessi skýrsla er þriðja sjálfbærni- og samfélagsskýrsla Veritas samstæðunnar og tekur til ársins 2022. Hún er gefin út einu sinni á ári. Skýrslan er gefin út samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative GRI staðla með tilvísun (e. *GRI Standards, content index with reference). Fyrri skýrslur voru gefnar út samkvæmt GRI Standards-Core. Starfsmenn af öllum sviðum félagsins koma að öflun efnis við ritun skýrslunnar. Þær upplýsingar sem birtast koma úr upplýsingakerfum félagsins og endurspegla þá þekkingu sem félagið hafði þegar skýrslan var rituð. Umhverfishópur tók saman upplýsingar um umhverfismál og reiknaði út kolefnisfótspor félagsins.
Veritas réði Podium ehf. til þess að gefa faglegt álit á ófjárhagslegri upplýsingagjöf sem sett er fram með GRI Standards tilvísunartöflu fyrir árið 2022 í sjálfbærniskýrslu félagsins. Verkefni okkar var meðal annars textagerð og að leggja mat á tilvísunartöflu GRI staðla sem sett er fram með vísun í „GRI Standards, content index with reference“. Hjá Podium ehf. starfa óháðir ráðgjafar með margra ára reynslu af upplýsingagjöf um ófjárhagslega þætti auk menntunar í ýmsum fræðum sem tengjast sjálfbærni. Skýrslan er árituð samkvæmt bestu vitund og byggir á áliti sem veitt er af heilindum, hlutlægni, faglegri hæfni og varkárni.
Tekin voru viðtöl við lykilstarfsmenn innan Veritas ásamt fyrirspurnum um verklag og aðferðir til að tryggja að GRI mælikvarðar séu settir fram í samræmi við GRI staðla. Við höfum lagt mat á ferla, aðferðir, útreikninga og eftirlitsþætti sem stuðst er við, við söfnun, greiningu, gerð og framsetningu upplýsinganna.
Stjórn og framkvæmdastjóri eru ábyrg fyrir gerð og framsetningu ófjárhagslegra upplýsinga, þ.m.t. upplýsingar um umhverfisþætti, samfélagsþætti, og stjórnarhætti, samkvæmt 66. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006. Tengiliðir vegna upplýsinga er varða skýrsluna og efni hennar eru Hrund Rudolfsdóttir, Pétur Veigar Pétursson, Kjartan Steinsson og Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir. Leiðsögn, ritstjórn,- og gæðatrygging skýrslunnar var í höndum Podium ehf.
Þar sem ekki er til formleg íslensk þýðing á staðlinum var stuðst við þýðingu Ábyrgra lausna ehf. á staðlinum en hún byggir m.a. á fyrri þýðingum með viðbótum. Sjálfbærniuppgjörið hefur að geyma helstu upplýsingar um umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnarhætti Veritas.
Stefna og starfsemi
Veritas og dótturfélög starfa á sviðum heilbrigðisþjónustu.Veritas ehf. er í einkaeigu og er félagið með starfsemi á sex stöðum á höfuðborgarsvæðinu og jafnframt með minniháttar starfsemi á tveimur stöðum á Kaupmannahafnarsvæðinu. Höfuðstöðvar samstæðunnar eru í Hörgatúni 2. Heildarvelta samstæðunnar á árinu 2022 var 29,5 ma. og fjöldi starfsmanna var í lok árs 252.
Veritas er móðurfélag fyrirtækjanna Vistor hf., Distica hf., Artasan ehf. MEDOR ehf. og Stoð ehf. Stefna Veritas er að sérhæfa sig í rekstri fyrirtækja á sviði heilbrigðisþjónustu og er fyrirtækið kjölfesta samstæðunnar. Móðurfélagið veitir þjónustu til dótturfyrirtækjanna þannig að þau geti einbeitt sér að kjarnastarfsemi sinni. Með þessu móti vinnur samstæðan með heilbrigðiskerfinu að því að auka lífsgæði Íslendinga.
Margar af stefnum fyrirtækisins voru samræmdar á árinu meðal annars með því að móta regnhlífarstefnu yfir þær allar. Þannig voru stefnurnar formfestar og jafnframt innleiddar í gæðakerfi Veritas. Til að mynda voru starfskjarastefnur allra fyrirtækja samstæðunnar samræmdar á árinu. Þær fjalla um starfskjör stjórnarmanna, stjórnenda og starfsmanna og hafa það að markmiði að laða að og halda í hæft starfsfólk ásamt því að gera Veritas samstæðuna að eftirsóknarverðum vinnustað. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að bjóða samkeppnishæf laun og aðrar greiðslur sambærilegar við það sem gerist í samkeppnisumhverfi á íslenskum vinnumarkaði.
Samstæðan setti sér markmið um vöxt og fjölþættingu, sem unnið hefur verið skipulega að frá 2015 til dagsins í dag, bæði með innri vexti og útvíkkun á starfseminni, en alltaf innan skilgreinds ramma heilbrigðissviðs.
Markmiðin taka til:
- Vaxtar í tekjum og arðsemi
- Markaðshlutdeildar á núverandi mörkuðum, sem og markmiða í öflun nýrra tekjuþátta
- Ánægju viðskiptavina
- Skipulags- og aukinnar framleiðni með rafrænum lausnum
- Gæða í ferlum og starfsháttum
- Stjórnarhátta og starfsánægju starfsmanna
Gildi
Gildi Veritas eru áreiðanleiki, hreinskiptni, framsækni:Áreiðanleiki snýst um það að standa við gefin loforð og vinna af heilindum með fagmennsku og heiðarleika að leiðarljósi. Birgjar, viðskiptamenn og aðrir geta treyst því sem við segjum og lofum og að lög, reglur og aðrar kröfur sem til okkar eru gerðar séu virt.
Hreinskiptni skapar grunninn að heiðarlegu vinnuumhverfi. Við gefum skýr skilaboð og segjum það sem í brjósti býr á nærgætinn og uppbyggilegan máta. Við viljum virkja skoðanir sem flestra og örva gagnrýna hugsun. Að tala hreint út og fara ekki í kringum hlutina sparar tíma.
Framsækni táknar löngun og viðleitni starfsmanna til að vaxa, þróast, þroskast og gera betur. Við leitum alltaf leiða til að gera betur – endanleg lausn er ekki til. Við erum opin fyrir breytingum og nýjungum, sýnum frumkvæði og ögrum núverandi stöðu.
Gildi Veritas
Gildi Veritas eru niðurstaða gildavinnu sem allir starfsmenn fyrirtækisins tóku þátt í. Starfsmenn Veritas og dótturfyrirtækja hafa þau að leiðarljósi í störfum sínum. Gildin eru táknuð með eftirfarandi merkjum.
Áreiðanleiki
Áreiðanleiki snýst um það að standa við gefin loforð og vinna af heilindum með fagmennsku og heiðarleika að leiðarljósi. Birgjar, viðskiptamenn og aðrir geta treyst því sem við segjum og lofum og að lög, reglur og aðrar kröfur sem til okkar eru gerðar séu virt.
Hreinskiptni
Hreinskiptni skapar grunninn að heiðarlegu vinnuumhverfi. Við gefum skýr skilaboð og segjum það sem í brjósti býr á nærgætinn og uppbyggilegan máta. Við viljum virkja skoðanir sem flestra og örva gagnrýna hugsun. Að tala hreint út og fara ekki í kringum hlutina sparar tíma.
Framsækni
Framsækni táknar löngun og viðleitni starfsmanna til að vaxa, þróast, þroskast og gera betur. Við leitum alltaf leiða til að gera betur – endanleg lausn er ekki til. Við erum opin fyrir breytingum og nýjungum, sýnum frumkvæði og ögrum núverandi stöðu.
Framkvæmdastjórn Veritas
Stjórnir Veritas
Í Veritas eru virkar stjórnir yfir öllum félögunum og er fjöldi stjórnarmanna 3-4 og er þess gætt að hlutfall kynjanna innan sérhverrar stjórnar sé í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti. Hver stjórn setur sér starfsreglur og framkvæmir reglulega mat á eigin starfsháttum. Stjórnarmenn upplýsa að lágmarki árlega um hagsmuni sem gætu skapað hagsmunaárekstra. Hver stjórn setur sér starfsáætlun, sem er uppfærð reglulega, þar sem gætt er jafnvægis á milli fjárhagslegra og ófjárhagslegra málefna, s.s. jafnréttismála, samfélagsmála og umhverfismála.
Hluthafar eru þrír, Stormtré, Trausttak og Stjánkur:
- Stormtré ehf., 90%, í eigu Hreggviðs Jónssonar og Jóhanns Jónssonar, stjórnarmanns í Distica.
- Trausttak ehf., 6%.
- Stjánkur ehf., 4%, í eigu Hrundar Rudolfsdóttur forstjóra.
Hér fyrir neðan má finna skipurit Veritas samsæðunnar og upplýsingar um stjórnir.
Yfirstjórn Veritas
Stjórnir félaga í Veritas samstæðunni
Guðrúnarborg - stjórn
Stjórnarhættir og starfsreglur stjórnar
Gagnsæi, heiðarleiki og siðferði.Veritas leggur áherslu á gagnsæi, heiðarleika og gott siðferði í starfi sínu. Í heiðri eru höfð gildi fyrirtækisins og dótturfélaga þess; áreiðanleiki, hreinskiptni og framsækni. Fyrirtækið fylgir leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð o.fl. hafa gefið út, en þær fela í sér leiðbeiningar um innleiðingu reglna sem eru umfram það sem kveðið er á um í lögum og ætlað er að styrkja innviði fyrirtækisins og traust þess út á við.
Stjórn Veritas gefur á hverju ári út stjórnarháttayfirlýsingu í tengslum við ársskýrslu. Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda og ber meginábyrgð á rekstri þess. Stjórn hefur forystu ásamt forstjóra við mótun stefnu og setningu markmiða. Stjórnarháttayfirlýsingin gerir grein fyrir því hvernig samsetningu og verklagi stjórnar var háttað á undangengnu ári.
Hægt er að lesa um siðareglur, starfsmannastefnu, starfsreglur stjórnar, stjórnarhætti og upplýsingaöryggisstefnu Veritas og dótturfélaga með því að smella á krækjurnar hér fyrir neðan.
Í starfsreglur stjórnar var á árinu bætt við sérstökum lið sem lýtur að því að siða- og samskiptareglur Veritas og dótturfyrirtækja eigi jafnframt við um alla stjórnarmenn. Stjórnarformaður ber ábyrgð á því að kynna reglurnar fyrir stjórnarmönnum og skulu þeir undirrita afrit til staðfestingar þess að þeir hafi kynnt sér þær. Ef stjórnarmaður telur að hann hafi brotið gegn siða- og samskiptareglum Veritas eða viðmiðum sett á grundvelli þeirra skal hann tilkynna það án tafar til framkvæmdastjóra og stjórnar. Stjórnarmenn bera frumkvæðisskyldu að því að upplýsa um öll þau atvik sem teljast geta talist brot á siða- og samskiptareglum Veritas og viðmiðum sett á grundvelli þeirra. Stjórnarmenn skulu segja af sér við alvarleg brot á siða- og samskiptareglum Veritas og viðmiðum sett á grundvelli þeirra. Ef fram kemur ásökun um refsiverða háttsemi stjórnarmanns eða hann gerist uppvís um siðferðislega ámælisverða háttsemi skal stjórnarmaður segja af sér.
Haghafar
Haghafar hafa verið skilgreindir sem einstaklingar, hópar eða lögaðilar sem verða fyrir áhrifum af starfsemi og geta haft áhrif á starfsemi skipulagsheilda. Haghöfum er skipt í innri haghafa eða þá sem hafa bein tengsl við félagið og ytri haghafa sem tengjast ekki beint starfseminni en geta orðið fyrir áhrifum af starfseminni eða geta jafnvel haft áhrif á starfsemina. Þarfir, kröfur og áhrifavald haghafa geta haft áhrif á starfsemi og mótun ýmissa stefna og reglna. Þar má nefna samþykktir, fjárfestingarstefnu, stefnu um ábyrgar fjárfestingar, áhættustefnu, siða- og samskiptareglur, stefnu varðandi upplýsingamiðlun, starfsmannastefnu og starfskjarastefnu.
Ógnanir og tækifæri
Starfsemi samstæðunnar er háð ytri aðstæðum á ýmsa vegu en veigamestu áhrifaþættirnir eru þróun íslensku krónunnar sem hefur veruleg áhrif á heildarafkomu samstæðunnar, þar sem lyfjaverð er skráð í erlendri mynt. Einnig eru margir samningar við hið opinbera tengdir gengi með einum og öðrum hætti. Vörukaup samstæðunnar eru einnig í erlendri mynt að nær öllu leyti, sem og ýmsir þjónustusamningar við erlenda birgja. Mikil hreyfing á íslensku krónunni getur því haft margvísleg áhrif á rekstur og starfsemi. Stór hluti af starfsemi samstæðunnar liggur innan skilgreinds ramma heilbrigðiskerfisins og er starfsemin því vörðuð lögum, reglugerðum og opinberu eftirliti á ýmsa vegu. Samstæðan er því háð pólitískum og stjórnsýslulegum ákvarðanatökum, sem oft eru ekki fyrirsjáanlegar og tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum eru lítil. Ekki er ljóst á þessari stundu hvaða áhrif söluferli fyrirtækisins hefur á starfsemi fyrirtækisins til framtíðar, en vonir standa til að niðurstaða náist um mitt ár.
Siðareglur
Kjarnastarfsemi samstæðunnar er innflutningur og markaðssetning lyfja og kallar starfsemin á vönduð vinnubrögð. Siðareglur sem gilda fyrir alla samstæðuna voru settar árið 2018 en það eru sérstakar reglur sem snúa að samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn. Alþjóðlegar siða- og samskiptareglur lyfjafyrirtækja og heilbrigðisstarfsmanna, EFPIA, eru einnig hafðar í forgrunni. Markmiðið með reglunum er að tryggja fagleg vinnubrögð við markaðssetningu lyfja og að allar ákvarðanir opinberra starfsmanna séu hafnar yfir allan vafa. Samskiptareglur eru í samræmi við kröfur ESB tilskipunar 2001/83/EB, með síðari breytingum.
Jafnframt eru í gildi siðareglur samstæðunnar sem snúa að samskiptum við alla aðra en heilbrigðisstarfsmenn.
Starfsmannastefna
Meginmarkmið starfsmannastefnu Veritas eru meðal annars að starfsánægja sé í hámarki, að launakjör séu samkeppnishæf og að jafnréttis sé gætt. Að auki er mikilvægt að starfsmenn kappkosti að vinna að eflingu liðsheildar og miðli þekkingu og reynslu á þann hátt að það nýtist öðrum jafnt sem þeim sjálfum. Hér má sjá starfsmannastefnu Veritas í heild sinni.
Veritas starfar samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamninga hverju sinni er heyra undir Samtök atvinnulífsins og viðkomandi stéttarfélaga. Stærstur hluti starfsmanna Veritas samstæðunnar eða um 70% eru félagsmenn í VR en aðrir starfsmenn eru félagsmenn fagstéttarfélaga s.s. Lyfjafræðingafélags Íslands, Verkfræðingafélags Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félags íslenskra náttúrufræðinga og Rafiðnaðarsambands Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Einhverjir starfsmenn hafa kosið að standa utan stéttarfélaga.
Upplýsingaöryggi
Veritas samstæðan vinnur fyrir u.þ.b. 350 erlenda birgja sem stundum geta átt í innbyrðis samkeppni og gera því miklar kröfur um trúnað og varðveislu gagna. Móðurfélagið ber ábyrgð á rekstri upplýsingakerfa fyrir samstæðuna og vinnur samkvæmt upplýsingaöryggisstefnu sem tekur mið af og er vottuð samkvæmt ISO/IEC 27001.
Veritas er handhafi skírteinis nr. IS 607526 frá BSI (The British Standards Institution) í London og er það vottun þess að fyrirtækið starfræki stjórnkerfi upplýsingaöryggis sem uppfyllir kröfur ISO/IEC 27001:2013. Veritas og dótturfélög þess fylgja upplýsingaöryggisstefnu sem tekur mið af ISO/IEC 27002, Starfsvenjum fyrir stjórnun upplýsingaöryggis.
Persónuvernd
Veritas hefur sett sér stefnu og reglur varðandi meðferð persónuupplýsinga til þess að tryggja að fyrirtækið fari eftir lögum íslenska ríkisins nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Veritas veitir starfsmönnum og viðskiptavinum sínum örugga og trausta þjónustu með persónuverndarstefnu sinni. Persónuverndarstefna Veritas