Nýtt merki á gömlum grunni

23.03.2023 Stoð
Nýtt merki á gömlum grunni

Nýtt merki á gömlum grunni – við styðjum þig!

Stoð þjónar veigamiklu hlutverki í samfélaginu, sinnir fjölbreyttri starfsemi og ólíkum þörfum viðskiptavina. Framtíðarsýnin og hlutverkið er skýrt, þ.e.a.s. Stoð eykur lífsgæði fólks og einfaldar daglegt líf þess. Við erum bæði þakklát og stolt að eiga þátt í því. Við styðjum þig! 

Stoð er rótgróið fyrirtæki sem á sér 40 ára langa sögu og hefur frá upphafi verið við Trönuhraun í Hafnarfirði. Þegar ákveðið var að flytja Stoð á nýjan stað, þ.e. úr Hafnarfirði til Reykjavíkur, nánar tiltekið á Dragháls 14-16, gafst tækifæri til að breyta ásýnd og yfirbragði fyrirtækisins og sækja fram af krafti.  

Grunnvinnan fólst í því að finna kjarnann í vörumerkinu, ramma betur inn fyrir hvað það stendur, finna hvað drífur Stoð áfram, hvernig týpan er - þróa merkið, styrkja og efla. Starfsmenn tóku þátt í þessari vinnu og sögðu m.a. að Stoð væri traust og framsækið fyrirtæki með tilgang, fyrirtæki sem býr yfir sérfræðiþekkingu, er faglegt, lausnamiðað og veitir persónulega þjónustu.  

Í stað þess að henda gamla vörumerkinu ákváðum við að skerpa á helstu einkennum þess og nota sterkari liti. Við fengum til liðs við okkur þær Rakel Tómas, hönnuð, og Elísabetu Sveinsdóttur, markaðskonu, sem leiddu endurmörkunina. Í dag erum við ákaflega stolt af því að kynna nýtt og nútímalegt merki með léttara yfirbragði, snarpari skilaboðum sem ferðast með okkur inn í stafræna framtíð.