Veritas fær viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2022

13.10.2022 Veritas
Veritas fær viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2022

Veritas hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar árið 2022 á ráðstefnu Jafnvægisvogar FKA (Félags kvenna í atvinnulífinu) sem haldin var þann 12. október. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Jafnrétti er ákvörðun“. Eliza Reid, forsetafrú, kynnti viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar (framkvæmdastjórn). Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni á vegum FKA og að því standa, auk FKA, forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Pipar/TBWA og Ríkisútvarpið.

Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim þátttakendum sem hafa náð markmiðunum um 23 á milli ára.

Jafnvægisvogin heldur úti mælaborði sem er ætlað að halda utan um tölfræðilegar upplýsingar um jafnrétti. Þannig er hægt að tryggja aðhald og góða frammistöðu. Í mælaborði Jafnvægisvogarinnar koma fram allar helstu opinberar upplýsingar um stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og innan hins opinbera og þær gerðar aðgengilegar á einfaldan og skýran hátt.

Ester Birna Hansen, ritari í Veritas, tók á móti viðurkenningunni fyrir hönd Veritas.