Samfélagsstyrkir Veritas samstæðunnar í desember 2022
Stærstu samfélagsstyrkir Veritas samstæðunnar eru að jafnaði veittir í desember ár hvert. Í ár voru það Kvennaathvarfið og Samhjálp sem urðu fyrir valinu.
Kvennaathvarfið hjálpar konum og börnum sem búa við andlegt eða líkamlegt ofbeldi eða eru þolendur mansals. Kvennaathvarfið stendur um þessar mundir fyrir söfnun til að geta byggt sér nýtt, hentugt húsnæði og vonum við að styrkurinn hjálpi til við það verkefni.
Samhjálp aðstoðar einstaklinga sem hafa farið halloka í lífinu vegna áfengis- og fíknisjúkdóma, fátæktar eða annarra samfélagslegra vandamála og stuðlar að velferð og sjálfsbjörg þeirra. Samhjálp rekur áfanga- og meðferðarheimili, nytjamarkað, ásamt því að reka kaffistofu þar sem fólki í neyð eru veittar máltíðir. Um 90 þúsund máltíðir eru gefnar á kaffistofunni á hverju ári.