Veritas samstæðan styrkir Samhjálp og Foreldrahús (Vímulaus æska)
Veritas og dótturfélög styrkja ýmis málefni ár hvert og eru stærstu styrkirnir veittir síðla árs. Í ár voru veittir styrkir til Samhjálpar og Foreldrahúss (Vímulausrar æsku). Fyrir utan peningastyrk, þá söfnuðu starfsmenn ýmsum fatnaði fyrir skjólstæðinga Samhjálpar, ásamt því að prjóna vettlinga og taka þátt í jólagjafainnpökkun Samhjálpar.
Samhjálp og Foreldrahús sinna mikilvægri þjónustu í samfélaginu og starfsemi þeirra er fagleg og vönduð. Samhjálp aðstoðar einstaklinga sem hafa farið halloka í lífinu vegna áfengis- og fíknisjúkdóms, fátæktar eða annarra samfélagslegra vandamála og stuðlar að velferð og sjálfsbjörg þeirra. Starfsemi Foreldrahúss skiptist í fræðslu, forvarnir og ráðgjöf. Þar er boðið upp á fjölskylduráðgjöf, sjálfstyrkingarnámskeið, bæði fyrir foreldra og börn, ásamt stuðningsmeðferð fyrir unglinga í fikti, neyslu og vímuefnavanda.