Þórður Arnar Þórðarson nýr framkvæmdastjóri Vistor
Þórður Arnar Þórðarson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Vistor og tekur við af Gunni Helgadóttur, sem sagði upp störfum fyrr á árinu. Gunnur verður Arnari innan handar til að tryggja farsæla og hnökralausa yfirfærslu, þar til hann tekur við 1. desember nk.
Vistor er leiðandi fyrirtæki á sviði markaðssetningar á lyfjum, heilbrigðisvörum og dýraheilbrigðisvörum á Íslandi. Árstekjur Vistor 2019 voru 11,2 milljarðar og stöðugildi 57.
Arnar hefur starfað sem markaðsstjóri hjá Vistor síðan um mitt ár 2018. Þar áður starfaði Arnar hjá Novo Nordisk, bæði sem vörustjóri í höfuðstöðvum sem og í þýskum og dönskum dótturfélögum fyrirtækisins.
Hann er með M.Sc. í markaðsfræði frá Copenhagen Business School og B.Sc. í hagfræði frá Auburn Montgomery.
Arnar er í sambúð með Ingibjörgu Heiðdal, lækni og eiga þau tvo stráka, tveggja og sex ára.
Vistor er dótturfélag innan Veritas samstæðunnar sem samanstendur af sex fyrirtækjum, þar sem hvert dótturfélag hefur sína stjórn og sinn framkvæmdastjóra.
Forstjóri Veritas er Hrund Rudolfsdóttir. Hrund segir „Við bjóðum Arnar velkominn með mikilli tilhlökkun og fullvissu um að með hans reynslu muni hann varðveita vel þau miklu verðmæti sem í fyrirtækinu búa, en jafnframt leiða fyrirtækið á nýjar brautir í síbreytilegu umhverfi. Það er jafnframt ákaflega gleðilegt þegar nýr leiðtogi sprettur uppúr starfsmannahópi samstæðunnar“.
Auk Vistor eru dótturfélög Veritas; Stoð sem sérhæfir sig í ráðgjöf, sölu og þjónustu á stoðtækjum, hjálpartækjum, sjúkraskóm, innleggjum og þrýstingsvörum. Artasan sem sérhæfir sig í sölu og markaðssetningu á heilsuvörum, lausasölulyfjum og samheitalyfjum. Distica sem sérhæfir sig í vörustjórnun fyrir fyrirtæki á heilbrigðismarkaði og MEDOR sem sérhæfir sig í ráðgjöf, sölu og þjónustu á hágæða lækningatækjum, hjúkrunar- og rannsóknarvörum.
Nánari upplýsingar veitir Hrund Rudolfsdóttir í síma 535-7101.